Nafnavesen; eða: Er þetta hægt, Matthías? M. J. Driscoll: Kallið mig Matthías eða kanske öllu heldur gör það ei, því svo heiti ég ekki, þ.e.a.s. ekki nema offissíelt. Foreldrar mínir kölluðu mig Matthew, Matthew James meira að segja. Á þeim tímum (1954) var Matthew frekar óvenjulegt nafn, þó það hafi síðar orðið með vinsælustu drengjanöfnum í hinum enskumælandi heimi; ég var lengi framan af sá eini sem ég vissi um með þessu nafni og kynntist t.d. ekki öðrum Matthewum fyrr en ég var kominn í háskóla. Þó hét aðalhetjan, sherrifinn, í TV-seríunni Gunsmoke Matt Dillon, sem varð til þess að ég var alltaf mikill aðdáandi þeirra þátta (konan sem rak salooninn þar í bænum hét líka Kitty, sem var nafn ömmu minnar, og var álíka glæsileg). Löngu seinna komst ég að því að Jim Arnes, sá stóri og stæðilegi leikari sem lék nafna minn í seríunni, var í raun og veru Íslendingur eins og Vilhjálmur Stefánsson, Bertel Thorvaldsen og mörg ef ekki flest önnur stórmenni. Eftirnafnið Arnes, borið fram í Ameríku allavega með áherslu á NES, var semsagt einhverskonar ummyndun af Árnessýslu. All is truly one, eins og ég er alltaf af reyna að benda fólki á. En sá Matthew sem ég heiti eftir var ekki Matt Dillon (sem ég held að hljóti að vera tilfellið með hinn unga bandaríska leikara Matt Dillon) heldur Matt White, sem var með einhverjum hætti skyldur föður mínum (langömmubróðir, að ég held). Hann bjó, þá nokkuð fullorðinn maður, heima hjá þeim þegar faðir minn var lítill, og sat uppi á loftinu allan daginn í ruggustól og reykti pípu (sem ég, eins og Aðalsteinn, maður viðtakanda þessa rits, gerir líka, trúlega einn af fáum núlifandi Íslendingum). Eftir sögn föður míns safnaði Uncle Matt álpappírnum sem maður keypti píputóbak í í þá daga, og átti rosastóru álpappírskúlu sem var víst ofsalega spennandi slíkt verður maður að hafa upplifað sjálfur til að geta skilið, býst ég við. Ljóst er að föður mínum hefur þótt vænt um kallinn, og hann sagði mér að hann hefði alltaf talið Matt vera sterkt nafn og ákveðið að láta son sinn, skyldi hann einhvern tíma eignast einn, heita því nafni. James var aftur móðurafi minn, sá sem var giftur Kitty. Hann hafði verið mjög ár í Indlandi í hernum og hafði verið hnefaleikakappi og skotið hlébarða (bikarana og feldinn hef ég í íbúð minni hér í Kaupmannahöfn). James-nafnið er frekar algengt enda hefur mér aldrei fundist að ég ætti það neitt sérstaklega, en ég verð að viðurkenna að ég verð enn þann dag í dag svolítill ergilegur þegar ég hitti einhvern annan sem heitir Matthew. Ég var alltaf kallaður Matt í mínum barndómi, a.m.k. af foreldrum mínum og vinum, en líklegast Matthew í skóla - ég man það ekki. Um tvítugt, þegar ég fór að semja ljóð og smásögur (gaf m.a.s. sumt út - full bibliographic information available on request), notaði ég stundum M. J. Driscoll, sem gæti hugsanlega hafa haft eitthvað með T. S. Elliot að gera). Snemma á ferli mínum á Íslandi, þ.e.a.s. ca. 1976, byrjaði fólk að kalla mig Matta (í staðinn fyrir Maþþjú, með stuttu [a] ), sem mér líkaði strax vel við, bæði vegna þess að ég tók það sem merki um að ég væri að verða nokkurskonar heimamaður og eins af því að það líktist því nafni sem ég var alinn upp við (ég hafði m.a.s. átt nokkra vini, og eina kærustu, sem kölluðu mig Matty). Árið 1989 ákvað ég að gerast íslenskur ríkisborgari. Ég hafði þá búið samfleytt á Íslandi í meira en tíu ár og ekki leit út fyrir að ég mundi búa annarstaðar á næstunni. Það má líta á það sem eina af livets små mysterier að síðan ég varð íslenskur ríkisborgari hef ég búið nánast eingöngu í útlöndum. En hvað sem því líður voru reglurnar þá ennþá þannig að gerðist maður af erlendu bergi brotinn íslenskur ríkisborgari þurfti hann að taka íslenskt nafn, a.m.k eitt kenninafn, til þess að hið aldagamla íslenska nafnakerfi bæri ekki tjón því ef hann skyldi eignast börn, sem kæmu þá til með að heita ættarnöfnum. Bréf sem við útlendingar fengum um þetta efni voru venjulega undirskrifuð af fólki sem hét Gröndal, Blöndal, Scheving, Briem eða Steffensen. Lengi vel þurfti maður að taka íslenskt föðurnafn líka, altso þykjast hafa aldrei verið neitt annað en Íslendingur. Sérlega interresant fannst mér klausan um að þó svo að maður héti erlendu ættarnafni sem líka fannst á Íslandi - Gröndal, Blöndal etc. - mætti maður ekki halda því, heldur þyrfti maður engu að síður að taka íslenskt föðurnafn. Olga, kona Hallfreðar Arnar, var Schram, en varð að kalla sig Fransdóttur í staðinn þegar hún fékk íslenskan ríkisborgararétt (dæmið sjálf hvort hljómar meira íslenskt). En ég meina fair enough; það er ekki hægt að ætlast til þess að gömul og fín ætt eins og íslensku Schramarnir leyfi fólki frá öðrum löndum að heita þeirra nafni á Íslandi, þó það hafi gert það heima hjá sér, eða hvað? Faðir minn hét Arthur (borið fram á Bostonensku [a:þa]), sem er ekki ýkjaólíkt Artúr, þannig að hefði getað gert það sama og Olga gerði og sagt að úr því ég væri sonur Arthurs gæti ég svosem alveg eins verið Artúrsson, en ég hef aldrei haft neina löngun né séð ástæðu til að losna við Driscoll-nafnið, enda göfugt nafn, frá írsku Ó h-Eidirsceoil, þ.e.a.s. afkommandi Eiderscels, írsks höfðings á 10. öld (nefndur í samtímahemildum sem Cathréim Cellacháin Caisil). Sú ætt réð ríkjum í suðvesturhorni Írlands á miðöldum og byrja Driscollar að skjóta upp kollinum í skjölum á 12. öld. Geri aðrir betur. En kenninöfnum varð að breyta, a.m.k. einu þeirra (á þeim dögum var líka bannað með lögum á Íslandi að heita fleiri en tveimur kenninöfnum, svo það var heldur ekki hægt, eins og síðar varð, að bæta við einu íslensku nafni). Matti er stytting á nafninu Matthías, og því lá beinast við að taka það. Matthew svarar þó í rauninni til Mattheus; Matthías var nefnilega annar maður, sá sem kom í staðinn fyrir Júdas (sjá Postulsöguna I.15-26). Nöfnunum hefur lengi verið ruglað saman, jafnvel í Biblíuhandritum, og þau eru faktiskt bæði runnin úr hebresku og þýða gjöf Guðs. Auk þess heitir enginn Mattheus á Íslandi nú til dags, svo ég hefði líklegast ekki fengið það hefði ég viljað. En semsagt, ég hefði getað heitað Matthías James - eða, eins og stúlkan í afgreiðslunni í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu stakk upp á, Matthew Matthías (eða Matthías Matthew); slík dæmi eru víst til menn sem heita Jón John eða Paul Páll. Þannig mundi ég geta haldið áfram að nota mitt gamla nafn en þau börn sem ég með einhverjum hætti kynni að eignast upp úr því yrðu Matthíasbörn, sem væri ekki ógnun við hið aldagamla íslenska nafnakerfi eins og það mundi vera ef þau hétu Driscoll. Ég hefði líka getað breytt síðara kenninafni mínu, James, í Jakob (frá Jacobus, upprunnalega úr hebresku, Yaakov, sá sem heldur um hælinn; m-ið í James er orðið til úr b-inu, sbr. Giacomo á ítölsku og Jaime á spænsku, sem hefur líka Iago, og bæði í spænsku og ítölsku eru líka til myndin Jacopo/Jakobo, lánuð úr Biblíunni). Ég hefði semsagt getað heitið Matthew Jakob, og ófæddu börnin mín teoretisku yrðu þá Jakobsbörn. Þótt ég hefði engin plön um að eignast fleiri börn (börnin mín tvö voru fædd áður en þetta gerðist og eru því Driscoll) fannst mér sú tilhugsun frekar hræðileg (Seg okkur, Ragnheiður, hver var þessi Jakob eiginlega, og varð ekki Matti reiður?). Af fagurfræðilegum ástæðum fannst mér best að breyta báðum nöfnum, ef breyta varð, og þannig byrjaði ég íslenska líf mitt sem Matthías Jakob Driscoll. Mér fannst þetta alltsaman frekar absúrd, og hafði ekki hugsað mér að nota þessi nöfn; tók aftur upp af skrifa nafnið mitt M. J. Driscoll, sem hefði getað átt við báðar útgáfurnar. Fólk hélt hvort sem er áfram að kalla mig Matta, og jafnvel á vísakorti mínu hélt áfram að standa, og stendur enn, Matthew J. Í passanum mínum stendur þó Matthías Jakob, með þeim afleiðingum sem nú verður greint frá. Í janúar 1995 flutti ég til Danmerkur, af ástæðum sem flestum lesendum þessa rits munu vera kunnar. Ég fór eins og lög gera ráð fyrir strax í Folkeregistret í Kaupmannahöfn til að skrá mig og hafði alla nauðsynlegustu pappíra með. Ég útskýrði fyrir konunni sem tók á móti mér (eftir örfárra klukkutíma bið) að þótt það stæði í passanum mínum að ég héti Matthías Jakob þá væri það í rauninni ekki nafnið mitt, og sýndi henni því til stuðnings fæðingarvottorð, giftingarvottorð, ökuskírteini (íslenskt), vísakort, vídeóleiguklúbbsmeðlimskort og så videre, í öllu hverju stóð nafnið mitt Matthew James. Hún tók ljósrit af þessu öllu saman og sagðist láta mig vita. Viku seinna fékk ég sygesikringsbevis þar sem stóð Matthias Jakob. Ég fór aftur í Folkeregistret og passaði mig að koma snemma, ca. hálftíma áður en þau opnuðu og beið því ekki nema í korter. Konan sem jeg talaði þá við útskýrði kurteislega fyrir mér að í Danmörku væru reglur reglur: Hvis der står Matthias Jakob i dit pas, så er det det du hedder. Ef ég vildi gera eitthvað í því mætti ég prófa Overpræsidiet, sem hafði með nöfn fólks að gera. Þangað fór ég, beið í klukkutíma eða svo og hitti loks tvær stúlkur, önnur þeirra einhverskonar lærimær hjá hinni, skildist mér, en hvorug miklu eldri en við lögaldur. Ég sagði þeim frá mínum raunum, sýndi þeim öll mín skilríki, sagði þeim að það að neyða fólk til að skipta um nafn væri öruglega brot á mannréttindum og nánast einhverskonar etnisk rengøring, í hverju þær voru alveg sammála mér (sérstaklega lærlingurinn), en þó að þetta væri alltsaman mjög beklageligt væru reglur reglur, og ef ég vildi breyta nafni mínu í eitthvað annað en það sem stæði á mínu sygesikringsbevis væri ég frjáls að gera það en það mundi kosta 3000 kr. (danskar). Ég sagði að ekki kæmi til greina að ég borgaði 3000 kr. til að fá að heita því nafni sem ég hafði fengið fyrir ekki neitt fyrir fjörutíu og eitthverjum árum síðan. Ef ég þyrfti að borga 3000 kr. vildi ég að minnsta kosti fá almennilegt nafn: Muhammed Hassan Husein Ali Khan, Wolfgang Amadeus Bösendorfer, Moonflower Bearhug, José Cuervo Carreras y Todos los Santos eða jafnvel Bo Bøje Juul-Jensen. Ég veit ekki með fyrri nöfnin, en Juul-Jensen hefði ég ekki getað fengið að heita ekki einu sinni Jensen því það er nefnilega bannað fyrir útlendinga í Danmörku að taka dönsk nöfn. Látum oss staldra hér við eitt augnablik á Íslandi er útlendingur sem vill gerast íslenskur ríkisborgari tilneyddur til að breyta nafni sínu og þykjast alltaf hafa verið Íslendingur, en í Danmörku má fólk frá öðrum löndum ekki breyta nöfnum sínum þannig að það líti út fyrir að það sé danskt. Ég veit ekki nákvæmlega hvað þetta segir um þessar tvær þjóðir, en eitthvað segir það þó. Ég veit heldur ekki hvor afstaðan mér finnst hrokafyllri. En hvað sem því líður þá hef ég orðið að nota Matthias Jakob í öllum mínum viðskiptum hér í Danmörku. Bæði þessi nöfn eru líka til í dönsku: Mat(t)hias, með áherslu á THI, og Jakob (sem af einhverjum ástæðum þykir ekki eins fínt og Jacob með c-i). Mat(t)hæus er líka til, að vísu í minna mæli. Allt eru þetta tökunöfn frá nýrri tíð og eru bæði nöfnin líka til í eldri myndum, sem fengu að taka þátt í den store svækkelse sem er svo einkennandi fyrir dansk sproghistorie. Þannig varð Matthías/Matthæus til Mads (borið fram [mas] og Jakob til Jeppe, Jep og svo Ib. Hvernig þróunin verður í framtíð er erfitt að spá fyrir, úr því að það er ekki mikið eftir af orðunum. Meanwhile, back in Iceland, var ákveðið að þessum nafnalögum skyldi breytt, þannig að útlendingar gætu fengið að halda sínum nöfnum þótt þeir gerðust íslenskir ríkisborgarar. Og það var m.a.s. afturvirkt. Ég skrifaði bréf til Dóms- og kirkjuráðuneytisins og bað um að nafni mínu yrði aftur breytt í Matthew James. Mánuði seinna fékk ég bréf til baka þar sem beðið var um upplýsingar um framtíðarplön mín varðandi búsetu, þ.e.a.s. hvort ég hyggðist flytjast aftur til Íslands. Ég skrifaði langt og (að mér fannst) snjallt bréf til baka og sagðist ekki geta svarað því að svo stöddu; ég væri íslenskufræðingur og kæmi heim ef mér byðist staða við mitt hæfi (gefandi í skyn að útlendingi myndi aldrei bjóðast staða sem íslenskufræðingur á Íslandi, en í rauninni get ég allsekki kvartað í þeim efnum, og ég held að það væri mun erfiðara fyrir erlendan dönskufræðing að fá að vinna sem slíkur hér í Danmörku). Auk þess sagðist ég ekki sjá hvernig búseta kæmi málinu við; vandamálið væri einmitt að ég var tilneyddur til að nota íslenska nafnið mitt í öðru landi. Ég beið í ca. hálft ár og á endanum hringdi ég í konuna sem hafði skrifað undir fyrra bréfið. Hún bað afsökunar á því að hafa ekki svarað mér fyrr en sagðist hafa verið veik og að enn væri verið að vinna í málinu. Hér um bil mánuði seinna fékk ég loksins bréf þar sem útskýrt var að úr því ég hefði ekki heimilisfesti á Íslandi gæti ráðuneytið ekki orðið við beiðni minni um nafnabreytingu, heldur heyrði það undir dönsk stjórnvöld að fjalla um þetta mál. Reglur eru semsagt reglur. Til þess að fá að heita nafni mínu í Danmörku, með öðrum orðum, verð ég að flytja aftur til Íslands ellegar borga 3000 kr. Og þannig standa málin enn, og enn heiti ég Matthías, a.m.k. offissíelt. Og því spyr ég: er þetta hægt? Mörg merkileg rit hafa verið gefin út á Íslandi í gegnum tíðina, en fá eins merkileg og Íslenzk fyndni, sem var safnað og samið af Gunnari Sigurðssyni frá Selalæk og kom út í 18 heftum á árunum 1933 til 1954. Ég hygg að fáar þjóðir aðrar eigi svo stórt safn brandara og spaugsagna, þannig að má segja að við höfum hér hvorki meira né minna en nationalklenodie hvort hægt er að segja að þetta efni sé beinlínis fyndið er svo annað mál. Eina sögu hefur mér þó alltaf þótt vænt um, sem er sagan með titlinum Er þetta hægt, Matthías. Fyrir þá sem ekki hafa bækurnar við hendina, er hún þannig: Oddur Gíslason bæjarfógeti á Ísafirði var að halda próf í barnsfaðernismáli, og bar stúlkan það, að barnið hefði komið undir í hásetaklefa á smábát, og hefðu samfarirnar farið fram í óvanalegum og óeðlilegum stellingum. Þá sneri Oddur sér að skrifara sínum, sem hét Matthías, og sagði: Er þetta hægt, Matthías? Heimildamenn mínir á Íslandi, meðal annara Svavar Sigmundsson, sem er tengdur með einhverjum hætti Gunnari Sigurðssyni frá Selalæk (ég veit ekki betur en að hann hafi búið hjá þeim þegar Svavar var ungur, og það kæmi mér allsekki á óvart þótt Gunnar þessi hefði átt risastóru álpappírskúlu), segja mér að í rauninni hafi bæjarfógetinn á Ísafirði verið Magnús Torfason, og að Matthías þessi væri faðir Áslaugar Svane, sem lengi var ritari hér á Árnasafni í Kaupmannahöfn. Þarna sjáið þið. Sumir, meðal þeirra viðtakandi þessa rits, hafa stundum kallað mig Matthías, og þessi setning, er þetta hægt, Matthías?, hefur ekki ótítt verið brúkuð við mig. Mér þykir vænt um söguna, og svei mér ef ekki líka um nafnið. Afmælisbarnið sagði mér einusinni að í þeirri versjón af sögunni sem hún þekkti væri svar ritarans, nafna míns, með, sem væri: Víst er þetta hægt. Nú er ég hugsa um það finnst mér að þetta gæti eins verið mottó Beggu. Þetta er víst hægt. Og ef allt er í rauninni eitt, þá skiptir ekki máli hvað maður heitir; maður er bara. Svo kallið mig bara Matthías. © M. J. Driscoll Grein þessi birtist upphaflega í Ægisif, reist Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur fimmtugri 28. september 2000 (Reykjavík, 2000). |